top of page

Valur Norðdahl

Valur Norðdahl

Valur Norðdahl var íslenskur töfra- og fjöllistamaður, fæddur 1911. Sýningarnar einkenndust af „ótrúlegum töfrabrögðum“ auk þess sem brandararnir flugu frá honum allan tímann. Valur var flinkur í sleight of hand. Hann gerði ýmsa spilagaldra og notaðist m.a. við bolta og kúlur, fingurbjargir, bönd og klúta.


Valur setti upp sýningu með Jóhanni Péturssyni, Svarfdælingi, oftast kallaður Jóhann risi, og fylltu Gamla bíó ítrekað. Áður hafði Jóhann verið aðal aðdráttarafl í stærsta fjölleikahúsi Evrópu. Þá fóru þeir einnig í sýningarferðir á landsbyggðina og var þeim alls staðar vel tekið og sýningarnar vel sóttar. Til að gefa einhverja mynd á túrinn heimsóttu þeir Akureyri, Siglufjörð, Akranes, Borgarnes, Keflavík, Vestmannaeyjar og Selfoss. Hafnarfjörður var í þá daga, árið 1945, hluti af túrnum. Þeir skemmtu þrjú kvöld í röð á Akureyri og fjögur kvöld í röð á Siglufirði. Þá voru áætlanir að fara til Ameríku en ekki er víst hvort úr hafi orðið en vitað er að Valur ferðaðist sjálfur til Bandaríkjanna og hélt þar töfrasýningar.


Valur bjó víða erlendis um tíu ára skeið, frá 1935 til 1945, þar af í London, Englandi. Þar var hann meðlimur í „Institute of Magicians“ sem síðar varð að The Magic Circle og „Goldstone Magician Club“ en Houdini var meðal stofnfélaga þess síðarnefnda og var fyrsti forseti félagsins og var til æviloka, frá 1911-1926. Þar hittust félagar tvisvar í viku og kenndu hvorum öðrum.


Valur flutti árið 1939 til Kaupmannahafnar og ætlaði að starfa þar en gekk erfiðlega. Árið 1940 vann Valur töfrakeppni í dönsku töframannafélagi og upp frá því hafði hann nóg að gera og skemmti á öllum helstu skemmtistöðum Dana. Árið 1942 áttu listamenn í Danmörku erfitt uppdráttar vegna síðari heimsstyrjaldarinnar og öllum samkomustöðum var lokað. Valur fór því til Þýskalands. Þar skemmti Valur í Flóra-theater í Hamborg, Central-Palace í Munchen, Wintergarten í Nurnberg og víða annars staðar. Valur skemmti í Kassel þegar loftárás var gerð þar í borg og 10.000 manns týndu lífi á um 90 mínútum. Allt töfradót Vals, sem hann hafði meðferðis, skemmdist.

Valur var kvæntur danskri konu og átti með henni fimm börn. Þau fluttu til Danmerkur þar sem Valur lést 1967, 56 ára.

Valur Norðdahl
bottom of page