top of page

Simson

Simson

Jens Christian Petersen Martinus Simson fæddist í Jótlandi í Danmörku árið 1886. Hann kom til Íslands árið 1913 með sirkussýningu ásamt tveimur öðrum, 27 ára gamall. Simson las hugsanir, sýndi töfrabrögð og dró bíla og lyfti hestum með tönnunum. Næstu tvö ár ferðaðist hann um landið með félögum sínum en settist svo að á Ísafirði.


17 ára gamall sá Simson sirkussýninigu og varð hugfanginn. Svo mjög að hann ákvað að ráða sig sem aðstoðarmann hjá eigandanum. Eftir nokkra mánuði fór hann að ganga á eftir greiðslu en var þess í stað rekinn. Stuttu síðar réði hann sig sem lærling í fámennum sirkus sem sýndi þvert á Danmörku og Þýskaland. Launin voru ekki há en hann lærði margt og eftir tvö ár var hann orðinn fullgildur sirkusmaður. Hann starfaði við það í tíu ár í stórum sem smáum hópum. Hann taldi galdurinn við velgengnina vera fólginn í því að hugsa hlýtt og fordómalaust til áhorfendanna.


Árið 1913 stofnaði Simson sinn eigin sirkus og sýndi í tjaldi sem rúmaði 600 áhorfendur. Hann hafði mest 14 manns í vinnu. Honum bauðst að flytja til Nýja Sjálands eða Bandaríkjanna en flutti til Íslands, seldi tjaldið og allt sirkusdótið og hóf nýtt líf.


Simson gerðist síðar ljósmyndari, stofnaði Skógræktarfélag Ísafjarðar, stoppaði upp dýr og var með fyrstu Íslendingum til að smíða útvarp. Þá skrifaði hann tvær bækur.


Jón Aðalbjörn bjó um tíma í sama húsi og Simson. Simson kenndi Jóni þá töfrabrögð og fljótlega fór Jón að koma fram með töfrasýningar. Simson kenndi Jóni einnig ljósmyndun sem Jón gerði að aðalstarfi.

Simson lést 1974, 87 ára að aldri.

Simson
bottom of page