top of page

Robert Houdin

Robert Houdin

Jean-Eugène Robert-Houdin er oftast kallaður Robert Houdin. Robert fæddist árið 1805 og var franskur töframaður. Hann bjó til mörg töfrabrögð og notaði til þess ýmsa tækni sem ekki þekktist á þeim tíma en hann er talinn upphafsmaður nútíma töfrabragða. Hann breytti töfrum í list.


Mamma Roberts dó þegar hann var ungur svo hann ólst upp hjá pabba sínum. Á þessum tíma höfðu fæstir séð lestir eða heyrt um rafmagn. Pabbi Roberts var klukkusmiður svo ungur að árum lærði Robert að setja saman ýmis tannhjól, gorma og fleira sem myndi seinna hjálpa honum að búa til töfrabrögð. Pabbi Roberts vildi að hann yrði lögfræðingur en Robert vildi feta í fótspor pabba síns og verða klukkusmiður. Hann fór að vinna í klukkubúð og keypti tvær bækur til að verða betri klukkusmiður. Þegar heim var komið og hann fór að skoða bækurnar kom í ljós að þær voru ekki um klukkur heldur um töfrabrögð þess tíma.


Hann fór að æfa sig að töfra og hélt svo sína fyrstu töfrasýningu. Hún var svo léleg að hann hætti næstum því við að verða töframaður. Vinur hans stappaði í hann stálinu og hann hélt áfram að æfa sig. Árið 1844 var hann loksins búinn að setja saman flotta sýningu og ætlaði að fara til Bretlands og fylla þar leikhús og stóra sali. Frakkar báðu hann um að byrja sýninguna í París og þar sló hún í gegn. Robert klæddi sig upp í svört kjólföt með pípuhatt. Robert eignaðist son sem fór að hjálpa honum með sýningarnar. Þeir lásu hugsanir gesta og sonurinn var látinn svífa.


Töfrabrögðin þeirra voru svo flott að sumir héldu að hann væri galdramaður en galdramenn voru oft settir í fangelsi. Robert þurfti því að útskýra töfrabrögðin fyrir lögreglunni til að sleppa við steininn. Talandi um lögregluna. Ríkur maður var rændur og hvorki þjófurinn né þýfið fannst. Maðurinn leitaði því til Roberts sem fann þýfið. Maðurinn þakkaði honum með því að gefa Robert leikhús! Hann varð svo vinsæll að árið 1848 hélt hann einkasýningu fyrir Viktoríu drottningu í Bretlandi.


Robert Houdin skrifaði margar bækur um töfra og sviðslist sem hafði mikil áhrif á töframenn seinna á 19. öld. Áhrif hans má enn finna í dag, sem dæmi klæðast margir töframenn kjólfötum og pípuhatti vegna áhrifa hans. Robert dó árið 1871, 65 ára gamall.

Robert Houdin
bottom of page