top of page

Chung Ling Soo

Chung Ling Soo

Chung Ling Soo fæddist í New York árið 1861. Hann var bandarískur og hét réttu nafni William Robinson. Pabbi William var líka töframaður og hann ákvað að feta í fótspor föður síns. Hann kom þó alltaf fram sem kínverski töframaðurinn Chung Ling Soo og klæddist kínverskum fötum. Hann var svo sannfærandi að allir héldu að hann væri raunverulega kínverskur. Hann blekkti þannig áhorfendur alla sína ævi. Það sem meira er, William hafði séð kínverskan töframann, Ching Ling Foo, William tók sýninguna hans, gerði hana að sinni eigin og breytti nafninu örlítið. Ching Ling Foo varð Chung Ling Soo.


William hélt sína fyrstu töfrasýningu 14 ára gamall og ekki leið á löngu þar til tveir frægir töframenn, Harry Kellar og Alexander Herrmann, gáfu honum tækifæri á að taka þátt í sýningunum þeirra. Með þessa reynslu á bakinu fór hann að bæta við stórum sjónhverfingum við töfrabrögðin sín. Þegar Alexander Herrmann dó ákvað Williiam að fara af stað með sína eigin töfrasýningu.


Leikhús í París auglýsti eftir kínversku atriði, William sló til, klæddi sig upp sem kínverskur töframaður og fékk plássið. Hann rakaði af sér yfirvaraskeggið og hárið sitt en skyldi eftir sítt tagl. Hann notaði svo snyrtivörur til að dekkja húðlitinn, eitthvað sem stundum var gert hér áður en er ekki viðeigandi í dag. William var með aðstoðarkonu sem áður aðstoðaði Alexander Herrmann en varð síðar eiginkona William. Hún var einnig bandarísk og klæddi sig líka upp í kínverskan búning.


William ferðaðist um Bandaríkin, England og Ástralíu og þénaði þá um 5.000 dollara á viku sem var mjög há upphæð á þeim tíma. Hann var einna frægastur fyrir The Bullet Catch, stundum kallað hættulegasta töfrabragð í heimi, þar sem skotið er úr byssu og töframaðurinn grípur kúluna með munninum.


William dó árið 1918 á því að reyna þetta töfrabragð en að minnsta kosti 15 aðrir töframenn hafa látist við að reyna töfrabragðið, síðast árið 1988. Síðustu orð William voru: „Guð minn góður! Eitthvað gerðist - dragið gardínurnar fyrir!“ Þetta var í fyrsta sinn sem áhorfendur heyrðu hann tala og núna á fullkominni ensku.

Chung Ling Soo
bottom of page