top of page

Einar Aron

Haustið 2005 sá Einar Aron Fjalarsson, þá 9 ára, töframann sýna listir sínar á Glerártorgi. Hreyfst hann svo mjög að hæfni töframannsins að hann ákvað að þetta þyrfti hann að læra. Hann óskaði eftir bók í jólagjöf sem kenndi nokkur atriði í sjónhverfingum. Bókina fékk hann og í kjölfarið fylgdu þrotlausar æfingar. Nokkru síðar fékk hann lítið einfalt töfrasett sem einnig var krufið ofan í kjölinn. Góður stuðningur og hvatning foreldra leiddi hann áfram.

 

Sjónhverfingar áttu hug hans allan og fór nær allur frítími hans í æfingar. Tveimur árum síðar, þegar góðri færni var náð var kominn tími til að hitta aðra með sömu áhugamál. Það lá beinast við að hafa samband við forseta hins nýstofnaða félags töframanna, Hins íslenska töframannagildis. Þá vandaðist málið, því hann vildi lítið með hinn 11 ára gamla dreng frá Akureyri að gera, enda ófá börn sem hafa samband og ætla sér stóra hluti.

 

Því varð að finna leið til að ná athygli töframannanna og sýna þeim árangur tveggja ára þrotlausra æfinga. Færni unga töframannsins var tekin upp á myndband og sett á YouTube og þau send á stjórn Hins íslenska töframannagildis. Aðferðin bar árangur því nokkrir félagar sendu honum nokkur trikk og uppörvunarorð til að hvetja hann áfram.

 

Einar hélt áfram að æfa sig og þegar hann fór til Reykjavíkur hafði hann samband og hitti félaga sína sem gáfu honum góð ráð og leiðbeiningar um hvar mætti nálgast góð töfrabrögð.

 

Veturinn 2008-2009 sýndi Einar nokkur töfrabrögð í barnaafmælum sem hann var boðinn í og sýndu viðbrögð viðstaddra að hann var á réttri leið. Töframaðurinn Einar einstaki var að verða til  (sidenote: töframaðurinn Einar einstaki varð síðar töframaðurinn Einar Aron.

 

En hvernig átti að koma sér á framfæri? Það var spurning um að hitta rétta einstaklinga á réttum tíma. Undirbúningur fyrir Alþingiskosningar fóru fram vorið 2009 og þar var upplagt að láta sjá sig. Heimsóttar voru kosningaskrifstofur stjórnmálaflokkanna og heilsað upp á kosningastjórana. Þeim var sýnt eitt gott trikk og þjónusta töframannsins boðin endurgjaldslaust í kjölfarið. Í stuttu máli leist öllum vel á þessa hugmynd og kom Einar einstaki fram á kosningahátíðum allra flokkanna. Vakti færni unga mannsins mikla athygli og var hann í kjölfarið beðinn að sýna á hinum ýmsu útihátíðum á Austurlandi. Var hverju einasta tilboði tekið, hvort sem farið var um lengri eða skemmri veg og hvort sem sýningin gæfi eitthvað í aðra hönd eða ekki. Litið var á hverja einustu sýningu sem auglýsingu og alltaf gert sitt besta því það var aldrei að vita nema næsti viðskiptavinur væri einmitt á þeirri sýningu.

 

En það þurfti líka að koma sér á framfæri á heimaslóðum. Farið var með allar stærðir af auglýsingum á Dagskránna, eitt bæjarblað Akureyringa og voru þær birtar endurgjaldslaust sem uppfyllingarefni enda töframaðurinn ungi búinn að bera Dagskránna út í tvö ár og því starfsmaður fyrirtækisins. Þær báru strax árangur og nær undantekningarlaust koma sýningar í kjölfarið á auglýsingum.

Sumarið 2011 flutti Einar með fjölskyldu sinni á höfuðborgarsvæðið. Þá voru góð ráð dýr til að koma sér á framfæri sunnan heiða. Fljótlega var auglýst eftir þátttakendum í Hæfileikakeppni Íslands sem sýnd var á Skjá einum. Einar var einn af 500 keppendum en komst í úrslit og endaði í öðru sæti. Þannig komst hann fljótt og örugglega að sem töframaður á höfuðborgarsvæðinu.

 

Hvort það sem að framan greinir sé ástæðan fyrir því hversu mikla athygli Einar einstaki hefur fengið, eða þær „tilviljanir“ sem lífið býður upp á eins og að sýna blaðamanni sem hann hitti í heimahúsi nokkur trikk og fá umfjöllun í Fréttablaðinu í kjölfarið sem síðan kallaði á fréttaskot á RÚV og fleiri fjölmiðla eða sú staðreynd að hver einasta sýning er undirbúin með bæn til Guðs sem gefur alla hæfileika og opnar dyr sem enginn fær lokað, skal ósagt látið.

 

Þegar öllu er á botninn hvolft eru það margir samverkandi þættir sem skipta máli til að ná árangri; góð vara á sanngjörnu verði, áreiðanleiki í samskiptum ásamt vel heppnaðri markaðssetningu er hluti af því en einnig að vera réttur maður, á réttum stað, á réttum tíma.

bottom of page