• Einar Aron

Viðbrögð skipta máli

Reglulega erum við beðin um allskonar hluti. Við erum beðin um að gefa vinnu til trúnaðarstarfa, sitja í stjórnum, nefndum eða teymum, gefa peninga eða hvað annað. Það sama á við um öll þessi atriði.


Ímyndum okkur. Okkur býðst að senda hóp af fólki í vörutalningu og afraksturinn rennur í málefni sem stendur okkur nærri. Við hringjum í fólk sem við könnumst við sem okkur grunar að gæti verið til í þetta verkefni. Við náum í gegn og vinurinn svarar. VIð útskýrum málið og biðjum um aðstoð. „Öhh, ég veit ekki alveg hvort ég hafi tíma í þetta, ég er örugglega upptekinn. Hvenær verður þetta? Ég nenni þessu nú ekki alveg… [andvarpar], jájá, ég skal gera þetta fyrir þig.“

Tökum annað dæmi. Sömu aðstæður en svarið er öðruvísi. „Já, auðvitað er ég til! Hvernig kom þetta til? Ég er fáránlega mikið til!“.


Báðir aðilar samþykktu boðið. Báðir koma þeir á vörutalninguna. Annar gaf þér hvatningu til að halda áfram en hinn dró úr og lét það hljóma eins og hann væri að gera þér einhvern persónulegan greiða.


Við breytum ekki viðbrögðum annarra en við getum leitt þau í rétta átt og hvatt til að bregðast betur við, rétt eins og ég geri hér. Ég er farinn að afþakka svona aðstoð ef mér finnst fólkið vera að gera mér einhvern greiða. Það breytir engu fyrir okkur að segja „jájá, ég skal gera það fyrir þig en nenni því ekki“ og að segja „Já, ég er mjög til í að hjálpa þér. Þú samþykkir í bæði skiptin en annað breytir öllu fyrir þann sem hringir.

Næst þegar einhver hefur samband við þig hefurðu val á milli tveggja svara; „Já, ég er fáránlega mikið til“ eða „nei, ég hef ekki tök á því núna en gangi þér vel“.